Réttlát ást. Barátta fyrir viðurkenningu samfélags og kirkju á ást, kynverund og löglegri sambúð homma og lesbía á tveimur öldum
Greinin snýst um réttláta ást sem er ástarhugmynd sem fræðimenn jafnt sem aðgerðasinnar hafa nýtt í baráttunni fyrir viðurkenningu á mannréttindum hinsegin fólks. Í fyrri hluta greinarinnar er hugmyndin um réttláta ást sett í hugmyndasögulegt samhengi og fjallað um gagnrýni femínista á óréttlæti og ofbeldi sem viðgengst á einkasviðinu. Því næst er fjallað um breyttar ástarhugmyndir í framsetningu þriggja fræðimanna, Irvings Singer, Anthonys Giddens og Christinar E. Gudorf. Singer bendir á að vestrænar ástarhugmyndir séu undir áhrifum tveggja meginstrauma: hughyggju og raunhyggju, en þau Giddens og Gudorf einblína á samtímann og þrá fólks eftir að umbreyta ástinni og nánum samböndum og laga hvort tveggja að gildum um frelsi, sjálfræði og réttlæti. Í síðari hlutanum er sjónum beint að umræðu um ástir einstaklinga af sama kyni á tveimur öldum. Á ofanverðri 19. öld börðust hommar í Þýskalandi og Englandi fyrir viðurkenningu á homogenic ást sinni – án sýnilegs árangurs. Réttri öld síðar var umhverfið og menningin víða gjörbreytt og meiri vilji til að umbylta viðhorfum jafnt sem lögum um samkynhneigð og borgaraleg réttindi hinsegin fólks. Lykilatriði í þeim breytingum var nýr skilningur á ástinni þar sem réttlæti, frelsi og sjálfræði voru sett á oddinn.