scholarly journals Einstaklingsfrelsi og þjóðmenning: Um mannanöfn og íslenska þjóðernishyggju

2021 ◽  
Vol 17 (2) ◽  
pp. 153-174
Author(s):  
Birgir Hermannsson

Tilgangur þessarar greinar er í fyrsta lagi sá að gera grein fyrir þróun löggjafar um mannanöfn, í öðru lagi að greina bakgrunn þessarar löggjafar í íslenskri þjóðernishyggju og í þriðja lagi að setja þessa umræðu í samhengi við ólík sjónarmið stjórnmálaheimspekinga um tengsl menningar og einstaklingsfrelsis. Lög um mannanöfn voru sett árið 1913 til að tryggja festu í nafngiftum, en árið 1925 voru ný lög sett til að ná þeim markmiðum að vernda íslenska nafnahefð og tungu. Þessi sjónarmið tengdust þjóðernishyggju með áherslu á sögulegt samhengi menningarinnar og mikilvægi óspilltrar menningar og tungu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Mikilvægasta gagnrýni á lögin er sú að hún skerði frelsi einstaklinga um of og síðar að verndun tungunnar og verndun íslenskra mannanafna séu tvö aðskilin fyrirbæri. Þegar mannanöfn eru aðskilin vernd tungunnar og sérstökum þjóðernishugmyndum má líta á íslenska mannanafnakerfið sem sérstakan menningararf sem þarfnast verndar. Rökin að baki lögum um mannanöfn má tengja við hugmyndastrauma sem leggja áherslu á frumlega og einstaka þjóðmenningu sem rétt sé og eðlilegt að ríkið styðji. Þessar hugmyndir má tengja við einstaklingsfrelsi með ýmsu móti, t.d. mikilvægi þess að tilheyra menningu og að fjölbreytileg menning sé forsenda frelsis og ólíkra lífshátta. Hugmyndir um sjálfræði einstaklinga setja einstaklinginn og val hans í forgrunn, menningin gegnir því hlutverki að vera farvegur fyrir mikilvæga valkosti. Ríkisvaldinu ber því að vera hlutlaust um menningu, m.a. mannanöfn. Erfitt er gera upp á milli þessara tveggja hefða, hér stangast einfaldlega á ólík gildi.

Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document