Reglur um viðbrögð og úrræði vegna óæskilegrar hegðunar alþingismanna á vettvangi starfsins
Í greininni er fjallað um hvaða reglur gilda um óæskilega hegðun alþingismanna á vettvangi Alþingis, á borð við einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Verður sjónum beint að ákvæðum siðareglna fyrir alþingismenn sem leggja áherslu á heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og leggja bann við einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni sem og annarri vanvirðandi framkomu af hendi alþingismanna í garð annarra þingmanna, starfsmanna þingsins og gesta þess. Jafnframt verður tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig ákvæði laga og reglna á sviði vinnuverndar sem ætlað er að sporna gegn slíkri háttsemi á vinnustöðum eigi við um Alþingi og alþingismenn og hvernig þessar reglur spila saman við fyrrnefndar siðareglur. Þá verður varpað ljósi á hvort og þá með hvaða hætti hegðun sem siðareglurnar leggja bann við samkvæmt framansögðu geti varðað alþingismenn refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð. Meginniðurstöður greinarinnar eru þær að í siðareglum fyrir alþingismenn felist sambærilegar kröfur til alþingismanna að þessu leyti og gilda um starfsfólk Alþingis samkvæmt lögum og reglum á sviði vinnuverndar. Þá geta alþingismenn bakað sér refsiábyrgð samkvæmt hegningarlögum sem og skaðabótaábyrgð vegna háttsemi sem lagt er bann við í viðkomandi ákvæðum siðareglnanna, að uppfylltum skilyrðum slíkrar ábyrgðar. Þótt alþingismenn njóti vissrar friðhelgi samkvæmt stjórnarskránni er umfang hennar takmarkað auk þess sem Alþingi getur ávallt ákveðið að aflétta henni.