scholarly journals Langtímarannsókn á ánægju ferðamanna í Landmannalaugum

2021 ◽  
Vol 18 (1) ◽  
pp. 1-20
Author(s):  
Anna Dóra Sæþórsdóttir

Langtímarannsóknir í ferðamálafræðum fela í sér söfnun sambærilegra gagna á a.m.k. tveimur tímapunktum, ásamt greiningu og samanburði á gögnunum á milli tímabilanna sem um ræðir. Í þeim er leitast við að skilja hvernig og hvers vegna mismunandi þættir ferðaþjónustunnar og ferðamannastaða, sem og viðhorf ferðamanna, breytast. Langtímarannsóknir sem greina hvernig ánægja ferðamanna þróast á ferðamannastöðum sem einkennast af lítt raskaðri náttúru og víðernum eru mjög takmarkaðar, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á heimsvísu. Slíkar upplýsingar eru hins vegar mjög mikilvægar til að viðhalda samkeppnishæfni staðanna og eru grundvöllur sjálfbærrar nýtingar þeirra. Í þessari grein er greint frá niðurstöðum langtímarannsóknar á ánægju ferðamanna í Landmannalaugum. Rannsóknin er byggð á könnunum í formi spurningalista sem voru lagðir fyrir ferðamenn í Landmannalaugum sumrin 2000, 2009 og 2019. Alls fengust svör frá um 2.900 einstaklingum. Meginmarkmiðið var að greina hvernig ánægja ferðamanna og skynjun þeirra á fólksfjölda, umhverfinu og innviðum hefur breyst á árunum 2000, 2009 og 2019. Niðurstöður leiddu í ljós að ferðamenn eru almennt mjög ánægðir með dvöl sína á svæðinu en þær benda einnig til þess að ánægja ferðamannanna sé að dvína. Ástæður þess eru margvíslegar en tengjast annars vegar innviðum, skipulagi og þjónustu og hins vegar vaxandi fjölda ferðamanna.

Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document