Tímarit um viðskipti og efnahagsmál
Latest Publications


TOTAL DOCUMENTS

137
(FIVE YEARS 33)

H-INDEX

3
(FIVE YEARS 0)

Published By Institute Of Business Research

1670-4851, 1670-4444

2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 83-98
Author(s):  
Einar Guðbjartsson ◽  
Eyþór Ívar Jónsson ◽  
Jón Snorri Snorrason

Einn mest áberandi þáttur í góðum stjórnarháttum síðustu tvo áratugina hefur verið endurskoðunarnefnd, sem fer með hluta af störfum sem stjórn hafði áður á sínu borði. Endurskoðunarnefnd er m.a. ætlað það hlutverk að auka traust almennings á fjárhagslegum upplýsingum á almennum fjármagnsmarkaði. Gagnsæi og traust eykst ekki sjálfkrafa. Vandaðir og heiðarlegir starfshættir eru nauðsynlegir til þess að öðlast traust haghafa. Rannsókn þessi felur í sér spurninguna um hvort að endurskoðunarnefndir auki gagnsæi og traust á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja. Greinin byggir á tveimur könnunum, annars vegar frá 2016 þar sem nefndarmenn endurskoðunarnefnda í einingum tengdum almannahagsmunum voru þátttakendur og hins vegar frá 2018 þar sem ytri endurskoðendur voru þátttakendur. Í greininni er fjallað um afstöðu og álit þátttakenda varðandi tilkomu endurskoðunarnefnda gagnvart gagnsæi og trausti m.t.t. fjárhagsupplýsinga. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður á Íslandi. Tilgátur voru settar fram um hvað væri álit og afstaða hópanna varðandi tilkomu endurskoðunarnefnda. Niðurstöður eru m.a. að meirihluti nefndarmanna og ytri endurskoðendur telja að bæði gagnsæi og traust hafi aukist með vinnuframlagi nefndarmanna í endurskoðunarnefndum. Það vekur þó athygli í rannsókninni að niðurstaðan er ekki eins afgerandi og ætla hefði mátt, þ.e. stór hópur bæði nefndarmanna og ytri endurskoðenda telur að tilkoma endurskoðunarnefnda hafi ekki aukið gagnsæi og traust m.t.t. fjárhagsupplýsinga. Sú niðurstaða kallar á frekari rannsóknir, t.d. með því að spyrja fleiri hagaðila um álit þeirra á endurskoðunarnefndum og hlutverki þeirra í að auka gagnsæi og traust. Þetta kallar enn fremur á rannsóknir sem miða að því að meta markvirkni endurskoðunarnefnda í stjórnarháttarkerfi fyrirtækja tengdum almannahagsmunum.


2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 37-52
Author(s):  
Hanna Dís Gestsdóttir ◽  
Auður Hermannsdóttir

Á degi hverjum birtast neytendum fjöldinn allur af auglýsingum þar sem fyrirtæki keppast um að fanga athygli þeirra. Samhliða auknum hlustendatölum hafa fyrirtæki gjóað augum sínum að hlaðvarpsmiðlinum og eru í sífellt auknum mæli farin að verja auglýsingafé í hann. Þó er skortur á vísindalegum rannsóknum þar sem áhrif slíkra auglýsinga á hegðun hlustenda eru könnuð. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvort trúverðugleiki hlaðvarpsþáttastjórnenda hafi áhrif á áform hlustenda um að kaupa vöru eða þjónustu sem þáttastjórnendur auglýsa í hlaðvörpum sínum og hvort þeim áhrifum sé miðlað af því einhliða sambandi sem hlustendur hafa myndað við þáttastjórnendur. Út frá fyrirliggjandi rannsóknum var sett fram rannsóknarlíkan. Í gegnum rafrænt hentugleikaúrtak fengust 1.137 svör frá hlaðvarpshlustendum. Niðurstöðurnar sýndu að því trúverðugri sem hlaðvarpsþáttastjórnandinn er, því meiri líkur eru á að hlustendur áformi að kaupa vöru eða þjónustu sem hann auglýsir í hlaðvarpi sínu, en þeim áhrifum er að öllu leyti miðlað í gegnum það einhliða samband sem hlustandi hefur myndað við þáttastjórnandann. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að hlaðvarpsþáttastjórnendur ýti undir myndun einhliða sambands ef auglýsingarnar í hlaðvarpinu eiga að vera líklegar til árangurs fyrir þau fyrirtæki sem kjósa að verja hluta af markaðsfjármagni sínu á þeim vettvangi. Rannsóknin bætir úr skorti á þekkingu á áhrifum hlaðvarpsauglýsinga á neytendur og er því mikilvægt framlag til fræðanna. Niðurstöðurnar veita jafnframt markaðsfólki upplýsingar sem geta hjálpað því að ákvarða hvort það eigi að auglýsa í hlaðvarpi og hvað ber að hafa í huga við val á hlaðvarpi. Mælst er til þess að vandað sé til verka, en trúverðugleiki þáttastjórnandans og geta hans til þess að fá hlustendur til að mynda einhliða samband við sig skiptir verulegu máli fyrir árangur auglýsinganna.


2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 67-82
Author(s):  
Vera Dögg Höskuldsdóttir ◽  
Brynjar Þór Þorsteinsson ◽  
Magnús Haukur Ásgeirsson ◽  
Ragnar Már Vilhjálmsson
Keyword(s):  

Markmið með þessari grein er tvíþætt, að prófa og þróa nýtt mælitæki markaðshneigðar með því að staðfesta margrannsökuð tengsl markaðshneigðar og ánægju viðskiptavina auk þess að kanna samband markaðshneigðar og tryggðar viðskiptavina í gegnum meðmælavísitölu (NPS) meðal matvöruverslana á Íslandi. Framkvæmd var megindleg rannsókn meðal viðskiptavina, þar sem notað var nýtt aðlagað mælitæki MARKOR, NPS og spurningar úr Íslensku ánægjuvoginni. Sérstök fyrirtækjasíða á Facebook var stofnuð til að geta nýtt markhópamiðaðar auglýsingar sem kerfið býður upp á og ná þannig til einstaklinga á dreifðu aldursbili. Niðurstöður byggja á 757 svörum eftir að gögn höfðu verið hreinsuð með tilliti til þeirra sem ekki svöruðu öllum spurningum eða tóku ekki afstöðu. Gæði gagna voru metin með SPSS auk við úrvinnslu niðurstaðna. Helstu niðurstöður eru þær að gæði mælitækisins er mikið. Áreiðanleiki mælitækisins var kannaður með aðferð Cronbach Alpha og var hann mikill eða α = 0,868. Ef spurningu var sleppt jók það ekki innri áreiðanleika mælitækisins heldur dró það úr auk þess sem lítil samfylgni var á milli spurninganna, eða frá 0,366 til 0,591. Niðurstöður staðfesta ennfremur niðurstöður fyrri rannsókna, að sterk tengsl séu milli markaðshneigðar og ánægju viðskiptavina, sem og líkur á meðmælum. Gefur það sterklega til kynna að hið nýja mælitæki mæli það sem því er ætlað að mæla með áreiðanlegum hætti. Niðurstöður greina einnig frá því að markaðshneigð og NPS spáir fyrir um 72,6% af breytileika ánægju viðskiptavina. Markaðshneigð hefur þó meiri forspágildi en NPS á ánægju. Markaðshneigð og ánægja viðskiptavina spáir fyrir um 63,3% líkum þess að viðskiptavinir mæli með versluninni við aðra en ánægja hefur meiri forspágildi á NPS. Niðurstöðurnar benda því til þess að aukin áhersla á markaðshneigð skili sér í meiri ánægju og síðar tryggð viðskiptavina sem er gott veganesti fyrir stjórnendur á þessum markaði til framtíðar, sé markmið þeirra að auka ánægju og tryggð viðskiptavina sinna.


2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 53-66
Author(s):  
Árelía Eydís Guðmundsdóttir ◽  
Íris Hrönn Guðjónsdóttir

Konur eru í minnihluta forystu í íslenskum skipulagsheildum og vísbendingar eru um að þær séu líklegri en karlar til að yfirgefa forystuhlutverkið að eigin frumkvæði. Þá fjölgar konum til þess að gera hægt í æðstu stjórnendastöðum í fyrirtækjum, sérstaklega sé litið til skráðra félaga. Konur eru þó í forystu víða og eru þær fleiri í opinberum fyrirtækjum heldur en einkafyrirtækjum. Ísland hefur mælst með minnst kynjabil í heimi síðastliðin 12 ár samfellt og konum er óvíða búinn jafn góður lagalegur réttur og á Íslandi. Í þessari grein var leitast við að varpa ljósi á hvað fengi íslenska kvenleiðtoga, sem komnar eru á eða yfir miðjan aldur, til að gera róttæka breytingu á starfsferli sínum með því að hverfa, að eigin frumkvæði, úr æðstu stjórnunar- og áhrifastöðum og snúa sér að ólíkum verkefnum. Eigindlegri aðferðafræði var beitt við rannsóknina og tekin voru viðtöl við 14 konur sem allar höfðu gegnt forystustörfum á sínu sviði. Helstu niðurstöður voru þær að umfangsmiklar breytingar á starfsferli hafi oftast haft fjárhagslegar og ímyndarlegar afleiðingar í för með sér. Viðmælendur hafi farið í sjálfsskoðun knúna af innri hvöt, sem tengdist gjarnan ytri þáttum eins og ónotum sem þeir höfðu upplifað í starfsumhverfi eða innri þáttum eins og heilsuleysi eða miklu vinnuálagi. Niðurstöður gefa til kynna að þegar horft er til starfsferils leiðtoga sé mikilvægt að gera ráð fyrir að þeir vilji breyta til eða haga lífi sínu og starfi með nýjum hætti á miðjum aldri. Fjölbreyttari leiðir leiðtoga til þess að sinna persónulegum þroska og endurmati á miðjum aldri er æskileg til að missa ekki út reynslu og þekkingu kvenleiðtoga.


2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 15-36
Author(s):  
Þórhallur Örn Guðlaugsson ◽  
Ásta María Harðardóttir ◽  
Magnús Haukur Ásgeirsson

Rannsóknir sýna að gæði þjónustu og ímynd stuðla að betri frammistöðu í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Markmið þessarar rannsóknar er að þróa líkan, sem fengið hefur vinnuheitið QIP-líkanið, sem leggur mat á að hve miklu leyti þessir þættir geta útskýrt breytileika í frammistöðu og hvort einn þáttur geti talist mikilvægari en annar. Enn fremur er lagt mat á hvort mismunur er eftir því hvar svarendur eru í viðskiptum í bankaþjónustu, sem alla jafna er talin fremur einsleit. Rannsóknin byggir á viðhorfskönnun meðal viðskiptavina þriggja stærstu viðskiptabankanna á Íslandi vorið 2021 en þessir bankar hafa yfir 95% markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði. Alls svöruðu 719 einstaklingar könnuninni en eftir að búið var að eyða út ófullnægjandi eða gölluðum svörum var fjöldi gildra svara 480. Spurningalistinn sem notaður var byggir á rannsóknarverkefni sem hófst árið 2004 þar sem lagt er mat á þróun ímyndar banka á Íslandi auk spurninga sem lögðu mat á þjónustugæði og meðmæli. Svör voru vigtuð út frá kyni og aldri og lýsandi þáttagreining sýndi fram á fjóra þætti: gæði 1, gæði 2, ímynd, og frammistaða en allir þættirnir sýndu viðunandi hleðslu (α > 0,7). Niðurstöður sýndu að líkanið útskýrði 65% af breytileika í frammistöðu (R2 = 0,65). Af þeim þáttum sem notaðir voru til að útskýra breytileikann kom í ljós að gæði 1 hafði mest vægi (β = 0,44) en sá þáttur einn og sér útskýrði 9% af breytileikanum í frammistöðu (P2 = 0,09). Sá þáttur sem hafði næst mest vægi var ímynd (β = 0,35) sem útskýrði 7% af breytileikanum í frammistöðu (P2 = 0,07). Sá þáttur sem útskýrði minnst af breytileikanum var gæði 2 (β = 0,13) en hann einn og sér útskýrði aðeins 1,1% af breytileikanum í árangri (P2 = 0,011). Í ljós kom að nokkur munur var eftir því hvar svarendur voru í viðskiptum. Þannig hafði gæði 1 afgerandi mest vægi meðal viðskiptavina Banka A (β = 0,56) á meðan að þátturinn ímynd hafði mest vægi á meðal viðskiptavina Banka C (β = 0,48). Vægi þátta var jafnara meðal viðskiptavina Banka B.


2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 1-14
Author(s):  
Hjördís Sigursteinsdóttir ◽  
Fjóla Björk Karlsdóttir

Mikilvægt er að starfsfólki líði vel á vinnustaðnum enda verja flestir stórum hluta ævinnar þar. Vellíðan á vinnustað hefur áhrif bæði á lífsgæði starfsfólks sem og verðmætasköpun fyrirtækja og þjónustugæði stofnanna. Það eru ýmsir þættir í vinnuumhverfinu sem geta valdið vanlíðan hjá starfsfólki og er einelti og áreitni á vinnustað talin hafa neikvæð áhrif á starfsfólk og þar með starfsánægju. Félagslegur stuðningur á vinnustað er hins vegar talinn verndandi þáttur gegn neikvæðum þáttum í vinnuumhverfinu. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða félagslegan stuðning á vinnustað meðal starfsfólks íslenskra sveitarfélaga og tengsl hans við starfsánægju, einelti og kynferðislega og kynbundna áreitni á vinnustað. Rannsóknin byggir á rafrænni spurningalistakönnun frá árinu 2019 meðal starfsfólks 13 íslenskra sveitarfélaga. Í heildina svöruðu 5.182 spurningalistanum að einhverju eða öllu leyti eftir þrjár ítrekanir, sem gefur 54% svarhlutfall. Mun fleiri konur en karlar eru þátttakendur í rannsókninni eða 82% en það kynjahlutfall endurspeglar vel kynjahlutfall starfsfólks sveitarfélaganna. Niðurstöðurnar sýna að félagslegur stuðningur mældist 4,1 á skalanum 1-5, hærri meðal kvenna en karla. Starfsánægja mældist einnig 4,1 og um 8% starfsfólksins hafði orðið yfir einelti á vinnustað og um 2% fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni. Niðurstöðurnar sýna einnig að félagslegur stuðningur hafði jákvæð miðlungs sterk tengsl við starfsánægju starfsfólksins og neikvæð veik tengsl við einelti og kynferðislega og kynbundna áreitni á vinnustað. Álykta má út frá niðurstöðum rannsóknarinnar að félagslegur stuðningur vinnufélaga og yfirmanna sé mikilvægur þáttur í starfsánægju starfsfólks sveitarfélaga og sé verndandi þáttur gegn einelti og áreitni á vinnustað. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að stjórnendur og þeir sem bera ábyrgð á vellíðan á vinnustað ættu að leggja áherslu á félagslegan stuðning á vinnustað, ekki síst nú á tímum Covid-19 og á vinnustöðum þar sem sálfélagslegt vinnuumhverfi er erfitt.


2021 ◽  
Vol 18 (1) ◽  
pp. 112-132
Author(s):  
Óskar Helgi Þorleifsson

Í þessari grein er lagt mat á halla íslenskrar Phillipskúrfu og stöðugleiki sambandsins kannaður á tímabilinu 1991–2018. Umtalsverðar breytingar urðu á umhverfi verðbólguþróunar á tímabilinu. Þá má nefna að Seðlabanki Íslands öðlaðist sjálfstæði frá pólitískum afskiptum, verðbólgumarkmið hefur verið innleitt og breyting varð á fyrirkomulagi gengismála árið 2001. Í kjölfar bankahrunsins komu svo til sögunnar takmarkanir á fjármagnshreyfingum sem auðvelduðu miðlun peningastefnu og síðar velgengni við að halda verðbólgu í samræmi við markmið. Fyrir tímabilið í heild finnst virkt Phillipssamband, sem frekar ber einkenni hröðunar-Phillipskúrfu: Sambandi slaka á vinnumarkaði og aukinnar verðbólgu. Á tímabilinu eftir efnahagshrunið minnkar fylgni verðbólgu við verðbólgu síðasta árs. Sambandið færist þá í áttina að því að lýsa tengslum milli slaka á vinnumarkaði og verðbólgustigs. Þetta hefur í för með sér að uppsveiflu þarf ekki endilega að fylgja niðursveifla jafnvel þótt stefnt sé að stöðugu verðbólgustigi til lengdar. Ekki voru afgerandi vísbendingar um flatari Phillipskúrfu á tímabilinu.


2021 ◽  
Vol 18 (1) ◽  
pp. 67-88
Author(s):  
Hildur Magnúsdóttir ◽  
Auður Arna Arnardóttir ◽  
Þröstur Olaf Sigurjónsson

Tilnefningarnefndir eru tiltölulega nýjar sem þáttur í stjórnarháttum fyrirtækja á Íslandi, en slík nefnd var fyrst sett á laggirnar árið 2014. Frá þeim tíma hafa slíkar nefndir verið að ryðja sér til rúms á Íslandi en þær eiga sér lengri sögu erlendis. Meirihluti skráðra fyrirtækja á Íslandi hefur í dag stofnað tilnefningarnefndir, en það eru þó skiptar skoðanir um ágæti nefndanna bæði meðal fræðimanna og stjórnenda. Innan Norðurlandanna starfa tilnefningarnefndir ólíkt hvað stjórnarhætti viðkemur, þar sem þær heyra ýmist beint undir hluthafa eða eru skipaðar sem undirnefndir stjórna. Hér er um að ræða mikilvægan mun eftir því hvor leiðin er farin, því áhrif á meðal annars gagnsæi í starfi nefndanna, valferli vegna nýrra stjórnarmanna og upplýsingagjöf til hluthafa, getur verið ólík eftir því hvor leiðin er valin. Erlendar rannsóknir á starf tilnefningarnefnda sýna að tilvist þeirra getur haft jákvæð áhrif á stjórnarhætti, fyrst og fremst þannig að starf þeirra leiði til skilvirks ferlis við val stjórnarmanna. Íslenskar tilnefningarnefndir hafa enn sem komið er lítið verið rannsakaðar. Þessi rannsókn leitast við að varpa ljósi á skoðanir hagaðila um það hvort tilnefningarnefndir á Íslandi eigi að vera undirnefndir stjórna eða heyra beint undir hluthafa. Blandaðri rannsóknaraðferð er beitt, annars vegar með viðtölum við hluthafa, stjórnarmenn í skráðum fyrirtækjum og nefndarmenn tilnefningarnefnda. Hins vegar er stuðst við niðurstöður könnunar sem send var til hluthafa, stjórnarmanna og tilnefningarnefndarmanna meðal 300 stærstu fyrirtækja á Íslandi. Niðurstöður sýna að hagaðilar telja að tilnefningarnefndir á Íslandi eiga frekar að heyra undir hluthafa en stjórn og þær eiga að vera kosnar af hluthöfum á hluthafafundum. Niðurstöðurnar gagnast hluthöfum og stjórnum fyrirtækja þegar kemur að stofnun og ákvörðun um skipulag í starfi tilnefningarnefnda.


2021 ◽  
Vol 18 (1) ◽  
pp. 21-44
Author(s):  
Guðbjörg Ingunn Óskarsdóttir ◽  
Ragna Kemp Haraldsdóttir

Ísland er fyrsta þjóðin til að lögfesta jafnlaunastaðal en tilgangur hans er að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á vinnustað. Samkvæmt lögunum ber vinnustöðum að fá jafnlaunavottun að undangenginni úttekt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig skipulagsheildir sem hlotið höfðu jafnlaunavottun hefðu staðið að innleiðingu jafnlaunakerfis í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvaða þættir reyndust styðja við innleiðingarferlið og hverjar væru helstu hindranir. Þá var kannað hvernig skipulagsheildum gekk að mæta auknum kröfum um skjalfestingu gagna samhliða innleiðingu. Rannsóknin byggist á eigindlegri aðferðafræði. Tekin voru tíu hálfstöðluð viðtöl, níu þeirra við sérfræðinga innan sex skipulagsheilda og eitt við úttektaraðila. Þá var höfð til samanburðar textagreining á kröfum ÍST 85:2012 til skjalfestingar og erindum í 437. þingmáli um lögfestingu jafnlaunakerfis frá 146. löggjafarþingi 2017-2018. Niðurstöður benda til þess að innleiðing jafnlaunastaðals hafi styrkt annað gæðastarf og öfugt. Þannig virtust skipulagheildir sem þegar höfðu innleitt gæðastaðla og/eða unnu skilvirkt að skjalastjórn hafa forskot á aðrar. Styrkur þeirra fólst í sérþekkingu starfsfólks á sviði mannauðsmála, gæðamála og skjalamála sem og formföstu umhverfi sem var vel undirbúið fyrir innleiðingu gæðastaðals. Með innleiðingu jafnlaunakerfis komust á agaðri vinnubrögð og aukið gagnsæi í launasetningu. Skjalfesting ýmissa mannauðsgagna jókst í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals. Niðurstöður leiddu einnig í ljós að helstu hindranir við innleiðingu voru tímaskortur og aukið vinnuálag. Starfaflokkun reyndist að auki tímafrek og var ekki studd af íslenskri starfaflokkun ÍSTARF95. Þá komu fram gagnrýnisraddir sem beindust að lögleiðingu jafnlaunastaðals almennt sem og að eftirlitsaðilum sem skorti fjármagn og mannafla til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Það er áhyggjuefni því að fjölmargir vinnustaðir eiga eftir að innleiða staðalinn fyrir lok árs 2022.


2021 ◽  
Vol 18 (1) ◽  
pp. 1-20
Author(s):  
Anna Dóra Sæþórsdóttir

Langtímarannsóknir í ferðamálafræðum fela í sér söfnun sambærilegra gagna á a.m.k. tveimur tímapunktum, ásamt greiningu og samanburði á gögnunum á milli tímabilanna sem um ræðir. Í þeim er leitast við að skilja hvernig og hvers vegna mismunandi þættir ferðaþjónustunnar og ferðamannastaða, sem og viðhorf ferðamanna, breytast. Langtímarannsóknir sem greina hvernig ánægja ferðamanna þróast á ferðamannastöðum sem einkennast af lítt raskaðri náttúru og víðernum eru mjög takmarkaðar, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á heimsvísu. Slíkar upplýsingar eru hins vegar mjög mikilvægar til að viðhalda samkeppnishæfni staðanna og eru grundvöllur sjálfbærrar nýtingar þeirra. Í þessari grein er greint frá niðurstöðum langtímarannsóknar á ánægju ferðamanna í Landmannalaugum. Rannsóknin er byggð á könnunum í formi spurningalista sem voru lagðir fyrir ferðamenn í Landmannalaugum sumrin 2000, 2009 og 2019. Alls fengust svör frá um 2.900 einstaklingum. Meginmarkmiðið var að greina hvernig ánægja ferðamanna og skynjun þeirra á fólksfjölda, umhverfinu og innviðum hefur breyst á árunum 2000, 2009 og 2019. Niðurstöður leiddu í ljós að ferðamenn eru almennt mjög ánægðir með dvöl sína á svæðinu en þær benda einnig til þess að ánægja ferðamannanna sé að dvína. Ástæður þess eru margvíslegar en tengjast annars vegar innviðum, skipulagi og þjónustu og hins vegar vaxandi fjölda ferðamanna.


Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document