scholarly journals Auglýsingar í hlaðvörpum: Áhrif trúverðugleika þáttastjórnenda og tengsl þeirra við hlustendur

2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 37-52
Author(s):  
Hanna Dís Gestsdóttir ◽  
Auður Hermannsdóttir

Á degi hverjum birtast neytendum fjöldinn allur af auglýsingum þar sem fyrirtæki keppast um að fanga athygli þeirra. Samhliða auknum hlustendatölum hafa fyrirtæki gjóað augum sínum að hlaðvarpsmiðlinum og eru í sífellt auknum mæli farin að verja auglýsingafé í hann. Þó er skortur á vísindalegum rannsóknum þar sem áhrif slíkra auglýsinga á hegðun hlustenda eru könnuð. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvort trúverðugleiki hlaðvarpsþáttastjórnenda hafi áhrif á áform hlustenda um að kaupa vöru eða þjónustu sem þáttastjórnendur auglýsa í hlaðvörpum sínum og hvort þeim áhrifum sé miðlað af því einhliða sambandi sem hlustendur hafa myndað við þáttastjórnendur. Út frá fyrirliggjandi rannsóknum var sett fram rannsóknarlíkan. Í gegnum rafrænt hentugleikaúrtak fengust 1.137 svör frá hlaðvarpshlustendum. Niðurstöðurnar sýndu að því trúverðugri sem hlaðvarpsþáttastjórnandinn er, því meiri líkur eru á að hlustendur áformi að kaupa vöru eða þjónustu sem hann auglýsir í hlaðvarpi sínu, en þeim áhrifum er að öllu leyti miðlað í gegnum það einhliða samband sem hlustandi hefur myndað við þáttastjórnandann. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að hlaðvarpsþáttastjórnendur ýti undir myndun einhliða sambands ef auglýsingarnar í hlaðvarpinu eiga að vera líklegar til árangurs fyrir þau fyrirtæki sem kjósa að verja hluta af markaðsfjármagni sínu á þeim vettvangi. Rannsóknin bætir úr skorti á þekkingu á áhrifum hlaðvarpsauglýsinga á neytendur og er því mikilvægt framlag til fræðanna. Niðurstöðurnar veita jafnframt markaðsfólki upplýsingar sem geta hjálpað því að ákvarða hvort það eigi að auglýsa í hlaðvarpi og hvað ber að hafa í huga við val á hlaðvarpi. Mælst er til þess að vandað sé til verka, en trúverðugleiki þáttastjórnandans og geta hans til þess að fá hlustendur til að mynda einhliða samband við sig skiptir verulegu máli fyrir árangur auglýsinganna.

Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document