scholarly journals Þáttaskil: Hvers vegna velja konur í forystu að fara úr æðstu stjórnunarstöðum á miðjum aldri

2021 ◽  
Vol 18 (2) ◽  
pp. 53-66
Author(s):  
Árelía Eydís Guðmundsdóttir ◽  
Íris Hrönn Guðjónsdóttir

Konur eru í minnihluta forystu í íslenskum skipulagsheildum og vísbendingar eru um að þær séu líklegri en karlar til að yfirgefa forystuhlutverkið að eigin frumkvæði. Þá fjölgar konum til þess að gera hægt í æðstu stjórnendastöðum í fyrirtækjum, sérstaklega sé litið til skráðra félaga. Konur eru þó í forystu víða og eru þær fleiri í opinberum fyrirtækjum heldur en einkafyrirtækjum. Ísland hefur mælst með minnst kynjabil í heimi síðastliðin 12 ár samfellt og konum er óvíða búinn jafn góður lagalegur réttur og á Íslandi. Í þessari grein var leitast við að varpa ljósi á hvað fengi íslenska kvenleiðtoga, sem komnar eru á eða yfir miðjan aldur, til að gera róttæka breytingu á starfsferli sínum með því að hverfa, að eigin frumkvæði, úr æðstu stjórnunar- og áhrifastöðum og snúa sér að ólíkum verkefnum. Eigindlegri aðferðafræði var beitt við rannsóknina og tekin voru viðtöl við 14 konur sem allar höfðu gegnt forystustörfum á sínu sviði. Helstu niðurstöður voru þær að umfangsmiklar breytingar á starfsferli hafi oftast haft fjárhagslegar og ímyndarlegar afleiðingar í för með sér. Viðmælendur hafi farið í sjálfsskoðun knúna af innri hvöt, sem tengdist gjarnan ytri þáttum eins og ónotum sem þeir höfðu upplifað í starfsumhverfi eða innri þáttum eins og heilsuleysi eða miklu vinnuálagi. Niðurstöður gefa til kynna að þegar horft er til starfsferils leiðtoga sé mikilvægt að gera ráð fyrir að þeir vilji breyta til eða haga lífi sínu og starfi með nýjum hætti á miðjum aldri. Fjölbreyttari leiðir leiðtoga til þess að sinna persónulegum þroska og endurmati á miðjum aldri er æskileg til að missa ekki út reynslu og þekkingu kvenleiðtoga.

Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document