Netla
Latest Publications


TOTAL DOCUMENTS

130
(FIVE YEARS 111)

H-INDEX

1
(FIVE YEARS 1)

Published By The Educational Research Institute

1670-0244

Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Logi Pálsson ◽  
Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Mat á málþroska gegnir mikilvægu hlutverki í greiningu og meðferð barna með röskun á einhverfurófi. Sterk fylgni málþroska snemma á lífsleiðinni er við langtímahorfur barna með einhverfu. Þar sem hluti einhverfra barna svarar stöðluðum prófum á ódæmigerðan máta gefa þau hugsanlega ekki dæmigerða mynd af málþroska barnanna. Málsýni veita annað sjónarhorn á málþroskamat barna sem greinast með einhverfu þar sem sýni eru fengin úr sjálfsprottnu tali í náttúrulegum aðstæðum. Í þessari rannsókn var málþroski 10 einhverfra barna (4;10 til 6;1 ára) athugaður með því að leggja fyrir stöðluð málþroskapróf (TOLD-2P og PPVT-4) og með því að taka málsýni af sjálfsprottnu tali. Niðurstöður sýndu meðalsterka til mjög sterka og tölfræðilega marktæka fylgni milli málþroskatölu og prófþátta TOLD-2P við mælieiningar úr sjálfsprottnu tali. Fylgni milli PPVT-4 og mælieininga úr málsýnum var meðalsterk en ekki tölfræðilega marktæk. Villugreining úr málsýnum gefur til kynna að einhverf börn geri villur af svipaðri gerð og dæmigerðir jafnaldrar en töluvert meira af þeim. Í stuttu máli er með nokkrum fyrirvörum hægt að draga þá ályktun að stöðluð próf og málsýni af sjálfsprottnu tali meti sömu undirliggjandi málþættina í beygingarlega flóknu tungumáli eins og íslensku. Málfræðivillur í málsýnum, bæði eðli þeirra og hlutfall, eru mikilvæg viðbót við upplýsingar sem fást með stöðluðum prófum. Frekari rannsókna á máltöku íslenskumælandi einhverfra barna er þörf.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Kristín Björnsdóttir ◽  
Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir
Keyword(s):  

Kulnun í kennslu hefur talsvert verið í umræðunni undanfarin misseri og er yfirleitt rakin til aukins álags í störfum kennara. Á vettvangi stjórnmála og í allri umfjöllun um skólamál er mikil áhersla lögð á árangursríkt skólastarf. Árangurinn er metinn með samræmdum mælingum og skimunum en um leið er farið fram á vissan sveigjanleika þar sem öllum nemendum skal mætt á einstaklingsgrundvelli. Þegar uppi er grunur um að árangur hafi ekki náðst eða að ákveðnum nemendahópum líði illa í skólanum verður almannarómur hávær þar sem skuldinni er skellt á skólakerfið og kennara með óvæginni gagnrýni. Almannarómur hefur skipað kennurum í sérstaka samfélagsstöðu og þegar sú staða er skoðuð í samhengi við heilsu þeirra vakna spurningar um líðan þeirra í vinnunni og hvernig þeir takast á við tilfinningar sínar í kennslu margbreytilegra nemendahópa. Í þessari grein eru skoðaðar tilfinningar og tilfinningavinna (e. emotional labour) kennara og bent á hvaða þættir stjórna þeim. Gerð er grein fyrir niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem viðtöl voru tekin við 14 grunnskólakennara sem höfðu reynslu af kennslu í margbreytilegum nemendahópum. Í greininni verða niðurstöður settar í samhengi við kenningar Söru Ahmed um svokallað tilfinningahagkerfi (e. affective economies) og Arlie Hochschild um tilfinningavinnu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að tilfinningar kennara séu fjölbreyttar, síbreytilegar og sveif list í samræmi við álagspunkta skólaársins. Kennarastarfinu virðast fylgja tilfinningar á borð við ástríðu, umhyggju, skömm og sektarkennd. Kennarar þurfa meðal annars að stjórna tilfinningum sínum í samskiptum við stjórnendur, nemendur og foreldra til að skapa traust og jákvætt andrúmsloft til náms um leið og þeir þurfa oft að sætta ólík sjónarmið og skoðanir allra hagsmunaaðila skólastarfsins. Mikilvægt er að skoða tilfinningar og tilfinningavinnu í skólastarfi svo mögulegt sé að draga úr tilfinningavinnu kennara og skapa þannig betra andrúmsloft og vinnuumhverfi öllu skólastarfi í hag.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Karen Rut Gísladóttir
Keyword(s):  

Í þessari grein segi ég frá þriggja ára starfstengdri sjálfsrýni (e. self-study) á eigin starfsháttum sem heyrandi íslenskukennari í kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða eigin kennslu út frá félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi. Markmið rannsóknarinnar var að draga fram augnablik í kennslu til að skoða hvernig eigin viðhorf, aðstæður og kennsluhættir ýmist sköpuðu eða takmörkuðu tækifæri nemenda til að nýta eigin mál- og menningarauðlindir í íslenskunáminu. Fræðilegar undirstöður rannsóknar eru annarsvegar félagsmenningarlegar hugmyndir um læsi og hinsvegar félagsmenningarlegar hugmyndur um nám og kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli. Hugmyndir um Orðræður með stóru O-i og fjöltáknun gegna mikilvægu hlutverki í að koma auga á undirliggjandi áherslur í kennslu og hvað hefur áhrif á störf kennara. Rannsóknargögn eru þátttökuathuganir, skrif í rannsóknardagbók, hálfopin viðtöl við foreldra og nemendur og verkefni nemenda.Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að til að byggja kennslu á auðlindum nemenda hafi ég þurft að leggja mig fram um að greina mótsagnakenndar hugmyndir um læsi eins og þær birtust í hugsunum mínum sem og athöfnum og orðum innan skólaumhverfisins. Á þeim grunni gat ég farið að endurhugsa eigin starfshætti með það fyrir augum að skapa nemendum rými þar sem þeir gætu nýtt mál- og menningarauðlindir sínar í námi. Í þeirri vinnu áttaði ég mig á mikilvægi ritunar í íslenskunámi nemenda með táknmál að móðurmáli. Að lokum varpa niðurstöður rannsóknarinnar ljósi á mikilvægi stöðu minnar sem rannsakanda í því umbreytingarferli sem ég þurfti að fara í gegnum sem kennari til að bera kennsl á margvíslegar mál- og menningarauðlindir nemenda.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Anna Magnea Hreinsdóttir ◽  
Kristín Dýrfjörð

Klukkan mótar starfshætti í leikskólum og stýrir tíma barna í daglegu starfi. Áhrif tímans á leikskólastarf og skipulag þess eru töluverð og er upplifun barna á tíma ekki sú sama og fullorðinna. Klukkan hefur áhrif á barnahópinn og tengist fagmennsku kennara sem felst í skýru dagskipulagi og vel skipulögðu starfi. Á sama tíma getur skipulag tímans komið í veg fyrir flæði í leik barna og dýpt. Markmið þessarar rannsóknar er að leita eftir upplifun barna á dvalartíma sínum í leikskóla og varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif þar á í þeim tilgangi að koma betur til móts við sjónarmið þeirra. Rannsakendur byggðu á aðferðum sniðnum að ungum börnum í anda þátttökurannsókna og vörðu tíma með 160 til 180 börnum á aldrinum 4 til 5 ára á níu deildum í sex leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður sýna að leikskólarnir sem tóku þátt í rannsókninni störfuðu eftir hefðbundnu dagskipulagi eða sveigjanlegu, sem þó var í eðli sínu ekki ósvipað hefðbundnu skipulagi, þar sem fastir liðir eru matartímar, samverustundir, leikur og útivera. Fram kom að börnin sem rætt var við þekkja ekki annað en að dvelja í leikskóla megnið af vökutíma sínum. Mörg barnanna töldu sig vera lengi í leikskólanum, sumum börnum fannst misjafnt hvort þau eru lengi eða stutt og einhverjum barnanna fannst þau vera stutt í leikskólanum. Fram kom að vinátta barna er þeim mikilvæg og að þau fái tækifæri til að fást við fjölbreytt, menntandi og merkingarbær viðfangsefni í leikskólanum sem þau fá að stýra sjálf. Gefa þarf tímaskyni barna gaum og ætti skipulag leikskólastarfs að taka mið af upplifun og skynjun barna á tíma.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Bragi Guðmundsson

Rannsóknin sem hér er kynnt byggir aðallega á skýrslum sveitakennara í Strandasýslu og Húnavatnssýslu frá árunum 1887–1905. Í þeim eru dýrmætar upplýsingar um ungmenni sem nutu formlegrar fræðslu á þessum tíma.Meðal niðurstaðna er að hlutfall barna sem fengu formlega fræðslu fór smám saman hækkandi en sýslurnar tvær voru samt vel undir landsmeðaltali þegar kom að hlutfallslegri skólasókn. Barnafræðslunni var misskipt. Minnst var hún norðan Steingrímsfjarðar, á austurströnd Hrútafjarðar og í ytri hluta Vindhælishrepps á Skaga. Allmikill munur var á milli sókna og/eða hreppa. Börn og systkini húsbænda voru 71% heildarinnar fræðsluárið 1894–1895 en fjölgaði í 78% áratug síðar. Hlutfall pilta og stúlkna var tiltölulega jafnt og aldursbil nemenda breitt.Heimiliskennsla var ríkjandi fræðsluform og fá börn gengu til kennslu milli bæja. Kennslustaðir voru 70 veturinn 1894–1895 og 78 áratug síðar. Nokkrir vitnisburðir eru um hvernig komið var til móts við börn fátækra. Litlar upplýsingar eru um húsakynni og aðrar ytri aðstæður. Ekkert fast skólahús var við Húnaflóa uns heimavistarskólinn á Heydalsá tók til starfa 1897 og ekkert slíkt reis næsta áratuginn. Lítið er vitað um kennsluaðferðir. Sumir kennaranna lýsa utanbókarlærdómi og yfirheyrslum en einnig voru nemendur æfðir í að skrifa eftir upplestri. Námstími var yfirleitt skammur og áhersla á að kenna ófermdum börnum skyldunámsgreinarnar fjórar: lestur, kristinfræði, skrift og reikning, að viðbættri réttritun. Eldri nemendur lásu fleira, helst náttúrufræði, landafræði og dönsku. Byggðirnar við Húnaflóa stóðu höllum fæti í þróun uppfræðslu og skólamála miðað við það sem best gerðist annars staðar. Þar réð líklega mestu dreifð búseta en einnig mögulega efnalegar aðstæður og íhaldssöm viðhorf til skólagöngu.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Svanborg R. Jónsdóttir ◽  
Skúlína Hlíf Kjartansdóttir ◽  
Svala Jónsdóttir ◽  
Svava Pétursdóttir ◽  
Torfi Hjartarson

Samtíminn er fullur af móthverfum sem fela í sér ógnir og tækifæri, álitamál og áskoranir. Nútímasamfélag kallar á skólastarf, þar sem nemendur eru virkir og skapandi þátttakendur, færir um að móta eigið nám. Þessi rannsókn segir frá fyrsta ári af þremur í þróunarverkefni þriggja grunnskóla í Reykjavík um sköpunar- og tæknismiðjur (e. makerspaces). Hún á að auka skilning á hvað þarf til að nýsköpun og hönnun í anda sköpunarsmiðja skjóti rótum í starfi grunnskóla og á hvaða uppeldis- og kennslufræði þar er byggt. Leitast er við að greina hvað helst einkenndi og hafði áhrif á innleiðingu tæknilausna, nemendavinnu og kennsluhátta í þeim anda. Byggt er á eigindlegri nálgun og reynt að fá innsýn í reynslu fólks, viðhorf og hugsun í verkefninu. Rannsóknargögn samanstanda af vettvangsathugunum, viðtölum við skólastjórnendur, verkefnisstjóra og teymi kennara í skólunum þremur, auk styrkumsóknar, upplýsingavefs og síðu Facebook- -hóps. Lýst er hvernig margir þættir spila saman og takast á við framgang verkefnisins ásamt tilraunum kennara á þeim grunni. Ekki síst er athygli beint að hugmyndum um kennslu og eflandi kennslufræði sem þar birtast eða búa að baki. Viðhorf og stuðningur skólastjórnenda, starf verkefnisstjóranna, viðhorf, reynsla og færni kennara, skilningur á verkefninu og mikilvægi þess, skipulag stundaskrár, samtal og samstaða eru þættir sem virðast skipta máli í innleiðingunni en einnig sérstaða einstakra skóla auk hefðar fyrir þemanámi þvert á greinasvið, teymiskennslu og skapandi starfi. Mörg uppbyggileg skref voru stigin á þessu fyrsta ári sem þarf að fylgja eftir með virku samtali og samvirkni þessara þátta.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Svanborg R. Jónsdóttir ◽  
Hafdís Guðjónsdóttir

Mikilvægi skapandi hugsunar og getu til skapandi athafna kemur skýrt fram í ákalli samtímans eftir nýsköpun og eru skapandi atvinnugreinar taldar vera mikilvægar í nútíma atvinnulífi. Samtíminn kallar sömuleiðis á sjálfbæra þróun sem krefst hæfni til skapandi hugsunar og aðgerða til að geta leyst vandamál og komið til móts við margvíslegar og flóknar þarfir heimsins. Menntastefna íslenskra yfirvalda frá 2011 byggir á sex grunnþáttum sem leggja skal til grundvallar allri grunnmenntun frá leikskóla til framhaldsskóla og einn þeirra er sköpun. Hér er sagt frá starfendarannsókn átta list- og verkgreinakennara á grunn-, framhalds- og háskólaskólastigi í samstarfi við háskólakennara sem stýrði rannsókninni. Þátttakendur gerðu úttekt á kennslu sinni og kennsluháttum og greindu hvernig þeir unnu að því að efla hinn skapandi þátt í námi nemenda sinna. Gögnum var safnað á tímabilinu desember 2016 til nóvember 2018. Helstu gögn voru dagbókarfærslur um starfið, samráðs- og ígrundunarfundir, náms- og kennslugögn, viðtöl, safnmyndir (e. collage) og afurðir greiningaræfinga. Fyrstnefndi höfundur greinarinnar vann úr gögnunum sem allir höfðu sameiginlegan aðgang að og sá síðarnefndi var rýnivinur og tók þát í hluta rannsóknarvinnunnar. Við greiningu gagna var beitt nálgun frásagnarrýni og niðurstöðurnar settar fram sem rýnisögur. Niðurstöðum var skipað í tvo meginflokka: 1. Að móta menningu skapandi náms og 2. Starfskenning og fagmennska. Nokkur þemu voru greind í hvorum flokki og eru þau kynnt með dæmum úr gögnunum sem rýnisögur kennaranna. Sú menning sem kennararnir leituðust við að móta einkenndist meðal annars af því að kenna grunnvinnubrögð í bland við frelsi og sköpun, góðar kveikjur, tilraunir og skapandi samtöl. Með þátttöku í þessari rannsókn á eigin starfi sýndu kennararnir fagmennsku og metnað fyrir hönd sinnar greinar og kennarastarfsins. Þeir sýndu hvernig hægt er að vinna hefðbundin verkefni eins og „ríkisbangsann“ á skapandi hátt um leið og þess er gætt að uppfylla kröfur aðalnámskrár.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Bergljót Gyða Guðmundsdóttir ◽  
Erla Karlsdóttir ◽  
Margrét Sigmarsdóttir

Árangursríkar forvarnir og stuðningur fyrir börn og ungmenni með taugaþroskaraskanir, svo sem athyglisbrest með/án ofvirkni/hvatvísi (ADHD), eru nauðsynleg til að styðja við farsælan þroska þeirra. Starfsfólk skóla gegnir gjarnan lykilhlutverki við að veita þann stuðning og er því mikilvægt að það hafi tækifæri, þekkingu og færni til að sinna honum á besta mögulega hátt. Markmið þessarar rannsóknar var að meta hvaðan þekking starfandi grunnskólakennara á Íslandi sem kenndu að lágmarki einum nemanda með frum- eða staðfesta greiningu á ADHD um röskunina kæmi, hversu vel undirbúnir þeir teldu sig vera fyrir kennslu þessa nemendahóps, áherslur þeirra og aðferðir við stuðning þessara nemenda og fleira. Öllum meðlimum í Félagi grunnskólakennara var sendur tölvupóstur með boði um þátttöku í rafrænni könnun og úrtak þessarar rannsóknar samanstóð af N = 592 grunnskólakennurum sem uppfylltu fyrrgreind þátttökuskilyrði (svarhlutfall 13%). Niðurstöður sýndu að flestir þátttakendur (91%) byggðu þekkingu sína um ADHD á reynslu af kennslu nemenda með röskunina sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna. Marktæk tengsl komu fram milli ýmissa svara þátttakenda og starfsaldurs þeirra. Meðal annars kom í ljós að fleiri kennarar með styttri starfsaldur (60–66%) sögðust sækja þekkingu á ADHD til náms síns en kennarar sem starfað höfðu lengur (29–44%). Meirihluti þátttakenda sagðist beita einhverjum þeirra aðferða sem teljast árangursríkar í stuðningi við nemendur með ADHD og virtust þeir einnig hafa nokkra þekkingu á gagnreyndum úrræðum. Niðurstöður bentu jafnframt til þess að kennarar gætu haft gagn af starfsþróun á þessu sviði, sérstaklega ráðgjöf og handleiðslu í gagnreyndum aðferðum við stuðning og mat á árangri innan skóla fyrir nemendur með ADHD. Farið er yfir helstu takmarkanir rannsóknarinnar og tillögur settar fram um næstu skref í rannsóknum á þessu efni.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Hermína Huld Hilmarsdóttir ◽  
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Umfjöllunarefni greinarinnar er karlkyns sjúkraliðar og störf þeirra á vettvangi þar sem langflest starfsfólk er kvenkyns og var meginrannsóknarspurningin hver reynsla karla væri af starfi sjúkraliða. Tekin voru viðtöl við átta karlkyns sjúkraliða á ólíkum aldri snemma árs 2017. Reynsla viðmælenda var sú að karlar gætu sinnt nærgætinni umönnun og þeir væru jafn færir um að sýna fagmennsku og alúð og konurnar í starfinu. Þótt þeir væru ánægðir með starfið var reynsla þeirra innan kvennastéttar í samræmi við margvíslegar staðalmyndir og kynhlutverk í samfélaginu. Niðurstöður gefa til kynna að í nánast öllum þáttum er lutu að starfinu var hægt að sjá einhvers konar afleiðingar eðlishyggju í samfélaginu um að starfið væri kvennastarf. Ekki síst kom þetta í ljós hvað fordóma varðar, til dæmis þegar notendur þjónustunnar eða aðstandendur voru tortryggnir körlum í starfinu, eða þegar sett var jafnaðarmerki á milli þess að vera karl og eiga að hafa meiri afkastagetu en konurnar. Viðmælendurnir virtust þó ekki taka þá fordóma sem þeir mættu nærri sér. Þegar þeir voru inntir eftir hvers vegna ekki væru fleiri karlar í stéttinni, og hvort rétt væri að reyna að fjölga þeim og þá hvernig, nefndu þeir gjarnan leiðir sem tengdust hugmyndum um karlmennsku og eðlishyggju, svo sem meiri ábyrgð og hærri laun.


Netla ◽  
2021 ◽  
Author(s):  
Edda Óskarsdóttir ◽  
Hermína Gunnþórsdóttir ◽  
Birna María Svanbjörnsdóttir ◽  
Rúnar Sigþórsson

Menntun fyrir alla er einn af meginþáttum þeirrar stefnu sem íslenskt skólakerfi er byggt á. Í úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir (hér eftir Evrópumiðstöðin) á framkvæmd stefnunnar, sem var birt 2017, kom fram að þrátt fyrir að stefnan væri skýr hefði skólasamfélagið hvorki skýra mynd af hugtakinu menntun án aðgreiningar né fullnægjandi skilning á hvað skólastarf á þeim grundvelli fæli í sér. Markmið greinarinnar er tvíþætt: Í fyrsta lagi að draga saman niðurstöður 23 funda sem haldnir voru um allt land á vegum stýrihóps Mennta- og menningarmálaráðuneytisins um menntun fyrir alla haustið 2018 með það fyrir augum að skapa umræðu um stefnuna. Til fundanna voru boðaðir fulltrúar leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, frístundaþjónustu, foreldrafélaga, skólaskrifstofa, félags- og skólaþjónustu auk heilsugæslu. Niðurstöðurnar eru byggðar á greiningu á umræðuverkefni sem lagt var fyrir á hverjum fundi þar sem þátttakendur komu sér saman um mikilvægustu breytingar sem gera þyrfti, og forgangsröðun þeirra, til að styrkja menntun fyrir alla í íslenska skólakerfinu. Í öðru lagi er markmið greinarinnar að leggja fram tillögur greinarhöfunda um aðgerðir til að efla menntun fyrir alla í íslenskum skólum. Þær eru byggðar á niðurstöðum umræðuverkefnisins ásamt niðurstöðum úttektarskýrslu Evrópumiðstöðvarinnar frá 2017. Þær eru settar í samhengi við fræðilegan bakgrunn menntunar fyrir alla og enn fremur líkan af vistkerfi menntunar með það fyrir augum að greina á hvaða stjórnsýslustigum menntakerfisins ábyrgð á framkvæmd hvers þáttar liggur.


Sign in / Sign up

Export Citation Format

Share Document